Podcast episodes
Season 3
EKKERT RUSL - Sea Growth er frumkvöðlafyrirtæki sem hyggst rækta fiskmeti með hjálp vísindanna með því að framleiða fiskhrávörur úr fiskfrumum, svokallaðan vistfisk. Birgitta Guðrún Schepsky Ásgrímsdóttir er einn stofnenda Sea Growth.
EKKERT RUSL - Sea Growth er frumkvöðlafyrirtæki sem hyggst rækta fiskmeti með hjálp vísindanna með því að framleiða fiskhrávörur úr fiskfrumum, svokallaðan vistfisk. Birgitta Guðrún Schepsky Ásgrímsdóttir er einn stofnenda Sea Growth.
Nýr heimur opnaðist þeim Lenu og Margréti þegar þær ræddu við Birgittu sem er einn af fjórum stofnendum frumkvöðlafyrirtækisins Sea Growth. Fyrirtækið hlaut Gulleggið 2024 en hugmyndin gengur út á það að framleiða fiskhrávörur úr fiskfrumum svokallaðan vistfisk. Ferlið er þannig að frumusýni er tekið úr villtum heilbrigðum fiski og frumurnar ræktaðar upp í þar til gerðum líftönkum. Draumurinn er að hefja starfsemina á Íslandi til þess að nota endurnýjanlega orku og íslenskt vatn. Til tals komu 3D prentarar í tengslum við matvæli og margt annað framandi. Lena og Margrét spyrja spurninganna eins og þær séu börn því þessi vísindi eru fyrir þeim eins og í vísindaskáldsögu. En raunin er sú að þess er ekki langt að bíða að vistfiskur, framleiddur úr frumum, verði lentur á disknum okkar ef allt gengur að óskum hjá Sea Growth.
EKKERT RUSL - "Hættum að væla og hugsum í lausnum,, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra í líflegu viðtali.
EKKERT RUSL - "Hættum að væla og hugsum í lausnum,, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra í líflegu viðtali.
„Við verðum amk næstu tvö árin með öfug orkuskipti sem þýðir að við erum með neikvæða þróun í grænu orkunni sem við státum okkur af. Það er skortur á raforku og því þurfa fyrirtæki í stóriðju að fara í olíu aftur, losun eykst og loftslagsbókhaldið okkar hefur farið niður,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra í viðtali í hlaðvarpinu Ekkert rusl. Hann segir að við verðum vinna hratt og láta hendur standa fram úr ermum til þess að mæta orkuþörfinni og lítið hafi verið hugsað til framtíðar síðustu 15-20 árin, þessi staða sé afleiðing þess. Hann segist þó ekki hafa áhuga á að vera með barlóm og tala um allt sem er miður heldur hugsa í lausnum og hætta að væla. „Við getum algjörlega náð markmiðum okkar um 100% græna orku árið 2040 sem þýðir að við verðum sjálfbær og laus við jarðeldsneyti en við verðum að vinna hratt og þess vegna er ég að losa um hömlur sem varða virkjanir,“ segir Guðlaugur Þór.
EKKERT RUSL - Carbfix er fyrirtæki sem við erum afar áhugasamar um því þar virðast gerast töfrar sem líkja eftir náttúrunni til þess að stuðla að hreinna andrúmslofti.
EKKERT RUSL - Carbfix er fyrirtæki sem við erum afar áhugasamar um því þar virðast gerast töfrar sem líkja eftir náttúrunni til þess að stuðla að hreinna andrúmslofti.
Ásdís Nína Magnúsdóttir sem starfar hjá Carbfix segir okkur frá á lifandi hátt en Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur frá árinu 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni og íslensku hugviti. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins en markmiðið með því verkefni er að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík.
EKKERT RUSL - Hún hefur lyft grettistaki þegar kemur að því að nýta mat þannig að allir hafi hag af. Bergrún Ólafsdóttir starfar nú sem verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum en var áður hjá Hjálpræðishernum.
EKKERT RUSL - Hún hefur lyft grettistaki þegar kemur að því að nýta mat þannig að allir hafi hag af. Bergrún Ólafsdóttir starfar nú sem verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum en var áður hjá Hjálpræðishernum.
Bergrún er með ótrúlegan kraft og í raun framúrstefnulega hugsun þegar kemur að því að nýta matvæli. Hún þekkir það vel sjálf að þurfa að spara og nýta vel það sem er í ísskápnum og hefur risastórt hjarta, bæði gagnvart þeim sem minna mega sín og móður jörð. Hún hikar ekki við að fara með afganga í Frískápana svokölluðu sem eru víðsvegar um bæinn og segir okkur frá því þegar hún fór í frí og tæmdi ísskápinn sinn og fór með allt í Frískáp. Hún grípur sér líka stundum samloku þar fyrir sjálfa sig þegar hún er á hlaupum eða að keyra á milli verslana. Henni finnst að slíkir ísskápar eigi ekki eingöngu að þjóna þeim sem hafa lítið á milli handanna heldur að verða til þess að við öll nýtum matvæli betur og sækjum þangað mat ef svo ber undir og setjum að sjálfsögðu matvæli þangað á móti. Í starfi sínu hjá Hjálpræðishernum leiddi Bergrún verkefni um mataraðstoð, gegn matarsóun en það gerði hún með Samkaupum sem á fyrstu fimm mánuðum verkefnisins leiddi til rúmlega 20 milljóna króna styrks og hefur leitt tli þess að allt að 300 einstaklingum er daglega gefin heit máltíð í hádeginu. Bergrún er menntuð í fata- og textílhönnun og hefur hlotið umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu. Bergrún er mikil uppspretta fróðleiks um þessi mál.
EKKERT RUSL - Matarleifarnar okkar eru að miklu leyti að fara í réttan flokk, eða allt að 70%, eftir að nýtt samhæft ruslflokkunarkerfi tók gildi. Þetta segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta-og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu.
EKKERT RUSL - Matarleifarnar okkar eru að miklu leyti að fara í réttan flokk, eða allt að 70%, eftir að nýtt samhæft ruslflokkunarkerfi tók gildi. Þetta segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta-og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu.
Gunnar Dofri er skemmtilegur viðmælandi enda er hann því vel vanur að tala í mikrófóninn þar sem hann heldur sjálfur úti hlaðvarpinu Leitin að peningunum. Hann segir okkur frá því að 7 tonn eða heilir 2 gámar komi inn í góða hirðinn á dag! Við fræðumst hjá honum um plastið en það sem er óendurvinnanlegt er allt brennt. Nú fyrir jólin er gott að huga að því að frauðplastið utan um tæki og dót á alltaf að fara í endurvinnslustöð, alls ekki í plasttunnuna. Það má alls ekki brenna það með öðru plasti. Íslendingar hafa staðið sig virkilega vel eftir að nýtt flokkunarkerfi tók gildi og matarleyfarnar í brúnu pokunum eru að skila sér mjög hreinar og mun betur en vonir stóðu til. "Gaia" er gas- og jarðgerðastöð Sorpu sem tekur matarleifarnar og vinnur úr þeim metangas og moltu. Þetta er hægt að gera með hreinar matarleifar. Ef ekki er þekking á því hvernig skuli flokka ákveðna hluti þá finnst svarið við langflestu í uppflettilausn Sorpu sem er það fyrsta sem blasir við þegar farið er á vefsíðu Sorpu Sorpa.is. Ruslinu er slegið inn í leitarvél og þá vitum við nákvæmlega hvert hluturinn á að fara. Við prófuðum til dæmis kassann með mandarínunum og hann flokkast sem ómálað timbur. Gleðilega hátíð öll og njótið þess að fræðast á mannamáli um ruslið okkar.